Opið hús í kvöld

Opið hús verður hjá Skákfélaginu í kvöld. Ekki gefst tóm til að halda fyrirlestur í þetta sinn, en öllum er þó frjálst að taka til máls. Annars bendir flest til þess að gestir hússins taki eina og eina skák sín á milli.

Á sunnudag verður svo fimmtán mínútna mót og hefst kl. 13


Glæsilegur árangur á Íslandsmóti skákfélaga!

Um síðustu helgi var seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga háður í Reykjavík. Eins og fram kom í pistli formanns eftir fyrrihlutann í október sl., voru allar fjórar sveitir félagsins í ákjósanlegri stöðu eftir þann hluta. Við upphaf síðar hlutans lá fyrir að þrjár af fjórum sveitum ættu raunhæfa möguleika á að vinna sig upp um deild.  Það var því hugur í mönnum í þetta sinn sem aldrei fyrr.

 

A-sveitin tefldi nú í fyrstu deild eins og oftast áður.  Ákveðið var að fjölga í deildinni fyrir þetta keppnistímabil, þannig að nú voru sveitirnar tíu og umferðirnar tveimur fleiri en í neðri deildunum. Hófst keppi í efstu deildinni því degi á undan hinum.

Ljóst var eftir fyrri hlutann að sveitin yrði einhversstaðar nálægt miðri deild; þ.e. engin fallhætta og heldur ekki vonir um verðlaunasæti. Raunar var þessi staða framar vonum, og þá ekki síður árangur nokkurra liðsmanna okkar, sem voru komnir í færi til að ná áfanga að alþjóðlegum titli. Þannig átti Thorbjørn Bromann möguleika á stórmeistaraáfanga (með árangur upp á rúmlega 2700 stig í fimm fyrstu umferðunum), og þeir Halldór Brynjar og Rúnar Sigurpálsson eygðu von um áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.

Þessar vonir dofnuðu þó eftir tap fyrir Bolungarvík 2-6 í 6. umferð, en þá biðu allir ofangreindir lægri hlut í sínum skákum. Sigur vannst hinsvegar á tveimur neðstu borðunum, þar sem þeir Gylfi og Stefán voru að verki.   Í 7. umferð tapaði sveitin aftur, nú fyrir GM Helli, en með sigri í sinni skák tókst Halldóri Brynjari að halda lífi í titilvonum sínum. Í næstu umferð vannst svo stórsigur á B-liði TR 7½-½. Heldur var ágjöfin þyngri í lokaumferðinni þegar sveitin beið sinn stærsta ósigur á mótinu,  1-7 fyrir sterkri sveit Vestmannaeyinga.  Þar glímdi Halldór Brynjar við Patreksfirðinginn snjalla, GM Henrik Danielsen. Með sigri í þeirri skák hefði langþráður áfangi náðst í hús, en Patreksfirðingurinn var ekki til viðtals um slíkt og vann öruggan sigur.

Það er til frásagnar að tveir góðir félagar, sem lítt hefur sést til um árabil, komu til liðs við sveitina í þetta sinn, nafnarnir Jón Kristinsson og Jón Garðar Viðarsson.  Var þessi liðsstyrkur öðrum keppendum mikið gleðiefni. Reyndar lét sá síðarnefndi sér eina skák nægja, en við væntum þess að hann komi sterkur til leiks á næsta tímabili. 

 

B-sveitin tefldi í þriðju deild og var þar í öðru sæti eftir fyrri hlutann. Er skemmst frá því að segja, að sveitin vann öruggan sigur í öllum þremur viðureignum sínum í síðari hlutanum, tapaði aðeins einni skák af 18.  Styrking A-sveitarinnar sem áður er getið kom sér vel í 3. deildinni; Mikael Jóhann tefldi allar þrjár skákirnar í B-sveit og Stefán Bergsson eina. Fengu þeir félagar fullt hús í þessum viðureignum. Þá tefldi nú í fyrsta sinn fyrir félagið Guðmundur Sverrir Þór, sem kominn var alla leið frá Svíþjóð. Einnig hann vann allar sínar skákir.

glaðbeittir b-sveitarmennMeð þessum árangri hreppti sveitin fyrsta sætið í deildinni og þar með sæti í annarri deild að ári.

 

C- og D-sveitir félagsins tefldu í 4. deild og voru í öðru og þriðja sæti eftir fyrrihlutann. Varla var við öðru að búast en C-sveitin næði einu af þremur efsti sætunum og flyttist því upp um deild, enda var sveitin nú óvenjuvel skipuð. Fór það reyndar svo, að sveitin hafði tryggt sér þriðjudeildarsæti þegar fyrir síðustu umferð. Róðurinn hjá D-sveitinni var heldur þyngri og mátti hún þola tap í næstsíðustu umferð fyrir b-sveit Reykjanesbæjar, sem vann deildina. Í síðustu umferð mættust svo SA-sveitirnar tvær innbyrðis.  c-sveitinLá þá fyrir að D-sveitin ætti nokkra möguleika á þriðja sætinu með því að ná einu stigi úr viðureigninni. Vera má að þetta hafi dregið nokkuð úr baráttuþreki sumra C-sveitunga, en þó var teflt til þrautar á nokkrum borðum. Niðurstaðan varð hinsvegar sex jafntefli og eitt stig til hvorrar sveitar. Síðan var beðið úrslita í öðrum viðureignum. Þar voru úrslit okkur hagstæð og báðar sveitirnar náðu takmarki sínu, að flytjast upp um deild.

Það liggur því fyrir að Skákfélagið mun eiga eina sveit í fyrstu deild að ári, aðra í annarri deild og tvær í þeirri þriðju.  Verður þetta að teljast harla gott.

 

Allir liðsmenn stóðu sig með prýði í þetta sinn, en sumir fengi fleiri vinninga en aðrir, eins og gengur.  Flesta fékk Mikael Jóhann Karlsson, sem að vísu tapaði fyrstu skák sinni á mótinu, en vann eftir það sjö skákir í röð! Mikael náði líka bestum árangri allra miðað við eigin stig, hækkaði um tæp 40 stig með þessari frammistöðu sinni.  Næstir honum að vinningum voru C-sveitungarnir Jón Kristinn Þorgeirsson og Loftur Baldvinsson, ásamt hinni gamalreyndu kempu Ólafi Kristjánssyni, sem tefldi í B-sveit. Allir voru þessir kappar taplausir og fengu 6 vinninga í 7 skákum.

Þegar stigabúskapurinn er gerður upp kemur í ljós að félagsmenn náðu því sem næst 95 alþjóðlegum skákstigum í hús, þ.e.a.s. græddu 95 stigum meira en þeir töpuðu í þeim 196 skákum sem þeir tefldu í keppninni.  Stigagróði Mikaels er áður nefndur, en aðrir sem bættu við sig 20 stigum eða meira voru Gylfi Þórhallsson, Halldór Brynjar Halldórsson, Andri Freyr Björgvinsson og Rúnar Sigurpálsson.

 

Félagið óskar öllum sem þátt tóku í þessari glæsilegu sigurför til hamingju með árangurinn. Við megum svo sannarlega vera stolt af okkar fólki!

 

Myndum með pistlinum var hnuplað af skak.is. Myndasmiður er gamall SA-félagi, Pálmi R. Pétursson.  Pistlahöfundur kann ekki að setja texta við myndir en viðeigandi texti við neðstu myndina er:

 ástin blómstrar!

ástin blómstrar á Íslandsmóti skákfélaga! 

 

 


Rúnar hraðskákmeistari

_skell_60_148_1228992.jpgÞeir sem veðjuðu á að Rúnar Sigurpálsson myndi vinna hraðskákmót Akureyrar fengu hlutfallið 1,0003 og er talið að sumir hafi grætt á þriðja þúsund króna í því samhengi. Rúnar brást þeim sumsé ekki og halaði inn 15 vinninga í 16 skákum - gerði í öryggiskyni jafntefli við tvo helstu keppinauta sína. Þátttaka á var með besta móti í þetta sinn og mörg meistaraverkin sáu dagsins ljós. Heildarúrslit sem hér segir:

 

1Rúnar Sigurpálsson15
2Jón Kristinn Þorgeirsson 13½
 Áskell Örn Kárason13½
4Haraldur Haraldsson12
5Gauti Páll Jónsson10½
6Ólafur Kristjánsson10
 Sigurður Arnarson10
8Andri Freyr Björgvinsson
 Sigurður Eiríksson
10Karl Egill Steingrímsson7
 Símon Þórhallsson7
12Haki Jóhannesson6
13Krtistinn P Magnússon
 Logi Rúnar Jónsson
15Sveinbjörn Sigurðsson4
16Óliver Ísak  Ólason
17Gabríel Freyr Björnsson0

 


Hraðskákmót Höfuðstaðar Norðurlands!

Hið árlega Hraðskákmót Akureyrar verður háð á morgun, sunnudag og hefst kl. 13. Teflt verður um hinn eftirsóknarverða titil „Hraðskákmeistari Akureyrar“.Í þeim slag eru margir kallaðir, en bara einn útvalinn. Spurningin er hvort núverandi...

Rúnar rúllar upp

Þriðja umferð TM-mótaraðarinnar fór fram í kvöld. 15 keppendur mættu til leiks, allt frá grunnskólanemum til ellilífeyrisþega. Rúnar Sigurpálsson var í miklu stuði, sigraði af miklu öryggi og vann allar sínar skákir. Næstir komu Áskell Örn og Jón...

Hraðskák á fimmtudag og sunnudag

Í köld kl. 20 fer fram þriðja umferð TM-mótaraðarinnar. Vænta má að hún verði góð upphitun fyrir Hraðskákmót Akureyrar sem fram fer á sunnudag kl. 13. Staða efstu manna í TM-mótaröðinni eftir tvær umferðir er sem hér segir: Rúnar Sigurpálsson 22...

Norðurlandameistarar úr Skákfélaginu!

Íslenska ungmennalandsliðið í skák varð um helgina Norðurlandameistari í skólaskák. Teflt var á Hótel Lególandi í Billund við góðar og skemmtilegar aðstæður. Lokaumferðin var afar spennandi en Danir og Svíar veittu Íslendingum harða keppni. Um miðja...

Skákþing Akureyrar - Landsbankamótið:

Jón Kristinn yngsti meistari sögunar, Haraldur og Andri Freyr næstir Í gær lauk Landsbankamótinu, sem jafnframt var Skákþing Akureyrar, hið 76. í röðinni. Eins og áður hefur komið fram var sigur Jóns Kristins þegar orðinn staðreynd fyrir lokaumferðina....

Lokaumferð Landsbankamótsins

Á morgun, 16. feb. fer lokaumferð Skákþings Akureyrar - Landsbankamótsins fram og hefst umferðin kl. 13.00. Jón Kristinn Þorgeirsson hefur þegar tryggt sér efsta sætið og er nú staddur á Norðurlandamóti. Hörku keppni er um annað og þriðja...

Eins peðs fleygur

Fimmtudaginn 13. febrúar verður haldinn skákfyrirlestur í salarkynnum Skákfélags Akureyrar. Að þessu sinni verður miðtaflsfyrirlestur og þemað er nokkuð óvenjulegt. Sjónum verður beint að því þegar peði er leikið yfir miðlínu án þess að auðvelt sé að...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband