Evrópumót skákfélaga í Durrës; Makedónar lagðir að velli.

Það gekk heldur betur hjá okkur í dag hér á Adriahafsströndum. Andstæðingarnir frá Prilep í Norður-Makedóníu, stigalega af mjög svipuðu styrkleika og við. Því sáum við fram á jafna og spennandi keppni. Útlitið var reyndar nokkuð óljóst fyrstu 2-3 tímana, en þá fór eyfirska keppnisharkan að segja til sín. 

Á fyrsta borði var Rúnar Sigurpálsson með svart og beitti Philidor-vörn (Fýludóri segja sumir). Svartur með heldur þrengri stöðu en trausta og bar jafnteflisviðleitni hans árangur þegar andstæðingurinn þáði boðið strax eftir 30 leiki (fyrr má ekki semja um jafntefli). Þessari skák lauk fyrst. 

Á öðru borði mætti Halldór Brynjar franskri vörn og lagði mikið undir, fórnaði m.a. peði fyrir sóknarfæri. Staðan var lengi mjög tvísýn, en í þann mund sem okkar maður virtist vera að knésetja (make)dónann, gleymdi hann sér augnablik og missti drottninguna fyrir lítið. Mátti gefast upp við svo búið. Við þessi tíðindi sperrtust andstæðingar okkar verulega og virtust trúaðir á sigur gegn hinni hánorrænu sveit. Voru komnir í forystu 1,5-0,5.

Þá var komið að Mikael á fjórða borði. Hann tefldi enska leikinn að venju og hafði lengi kverkartak á sínum manni, en það linaðist um tíma, sem kætti andstæðingana. Mikki kunni þó lagið á stöðunni; gaf skiptamun og fékk mikinn peðaflaum á drottningarvæng í staðinn. Á endanum gat hann komið upp einum 2-3 drottningum og þá gafst andstæðingurinn upp, heldur súr á svip. Nú var staðan jöfn og horfði vel með þær skákir sem eftir voru. 

Áskell beitti spænska leiknum í fyrsta sinn í áratugi í þessari skák og mátti verjast gegn uppskiptaafbrigðinu (4. Bxc6), sem sjálfur Fischer beitti með góðum árangri á sínum tíma. Hann jafnaði þó taflið fljótlega og náði svo frumkvæðinu gegn máttlítilli taflmennsku hvíts. Hann gat svo nýtt sér það til þess að vinna tvö peð og endataflið reyndist léttunnið.

Við vorum nú komnir með góða forystu því á sjötta borði náði Haraldur að knýja sinn mann til uppgjafar um svipað leyti. Staðan lengi í jafnvægi eftir hægfara byrjun í Sikileyjarstíl en eftir fingurbrjót hins makedónska voru engin grið gefin. Þarna var ljóst að við værum búnir að vinna viðureignina, þótt einni skák væri ólokið.

Síðast lauk skák Andra Freys á þriðja borði. Andri kom vel undirbúinn til leiks með svörtu gegn Colle-byrjun andstæðingsins. Allt gekk samkvæmt bókinni og svartur náði tafljöfnun þótt hvítu mennirnir virtust ógnandi. Andri náði að skipta upp í mjög þægilegt endatafl og eftir það var sigurinn auðsóttur, þótt hann tæki tíma. 4,5-1,5 var því mjög sannfærandi sigur og hefði reyndar getað orðið stærri. Nú eru menn komnir á skrið og aldrei að vita hvað bíður á framhaldinu. Litháensk sveit á morgun, sterkari en við á pappírunum, en við göngum ótrauðir til þeirrar glímu.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband