Haustmótið: Þrír með fullt hús eftir þrjár umferðir
Sunnudagur, 30. september 2018
Í dag fór þriðja umferð haustmótsins fram. Var að vanda hart barist og enn hefur ekkert jafntefli litið dagsins ljós.
Fyrstu skákinni lauk frekar fljótt eftir að Símon hafði unnið nokkurt lið af Hilmi. Símon sigldi skákinni þægilega í örugga höfn með svörtu mönnunum og hafði sigur.
Meiri dramatík var í skák Andra og Bensa. Andri tefldi byrjunina ónákvæmt og Benedikt nýtti sér það til fulls og vann mann og peð. Eftir það linaði hann tökin og Andra tókst að snúa laglega á Benedikt og snúa taflinu sér í vil og hafði að lokum sigur.
Í skák Sigurðar og Áskells kom upp staða sem Áskell hafði skoðað sérstaklega. Hann jafnaði taflið frekar auðveldlega með svörtu og náði frumkvæðinu. Í miðtaflinu missti Sigurður af millileik sem hefði getað flækt taflið töluvert með færum fyrir báða. Eftir það fórnaði Áskell skiptamun og fékk gjörunna stöðu. Úrvinnslan varð ekkert vandamál og Áskell vann sannfærandi.
Í skák Elsu og Smára varð Smári fyrir því að leika af sér peði í byrjuninni. Elsa hirti það og hafði að auki frumkvæðið. Hún tefldi af festu og jók pressuna jafnt og þétt uns staðan hjá Smára hrundi.
Úrslit urðu því þannig:
Sigurður Áskell 0-1
Andri Benedikt 1-0
Símon Hilmir 1-0
Elsa Smári 1-0
Staðan er þá þannig að Andri, Áskell og Símon eru efstir og jafnir með fullt hús vinninga eftir þrjár umferðir. Sigurður hefur tvo vinninga, Elsa María einn en Hilmir, Benedikt og Smári eru ekki enn komnir á blað þrátt fyrir góð tækifæri.
Næsta umferð verður tefld á fimmtudag. Þá eigast við:
Áskell og Smári
Hilmir og Elsa
Benedikt og Símon
Sigurður og Andri.
Flokkur: Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 18:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.