Akureyringar lögðu Ása í Vatnsdal
Mánudagur, 9. maí 2011
Síðasta laugardag sendu Skákfélag eldri borgara í Reykjavík Æsir, tíu manna sveit skákmanna til móts við eldri borgara sveit Skákfélags Akureyrar. Mótsstaðurinn var sá sami og á síðasta ári, veiðihúsið í Vatnsdalshólum sem er alveg frábær staður til þess að halda svona mót.
Einn Akureyringurinn Karl Steingrímsson og hans ágæta frú sáu um allar veitingar fyrir sunnanmenn, sem voru alveg frábærar, eins og á bestu hótelum.
Á milli bardaga gengu menn út í Þórdísarlund og söfnuðu orku fyrir næstu orrustu. Þetta er fallegur staður sem Húnvetningafélagið hefur ræktað og reist minnisvarða um fyrstu konuna sem fæddist í Vatnsdal. Þórdísi Ingimundardóttir "gamla"
Á laugardag var keppt í 15 mínútna skákum í tveimur riðlum, fimm menn í hvorum riðli.
Í A riðli sigruðu Akureyringar með 14½ vinningi gegn 10½ vinningum Sunnanmanna.
Bestum árangri fyrir Æsir náði Björn Þorsteinsson 4 v af 5. Hjá Akureyringum fékk Sigurður Eiríksson flesta v eða 3 ½ af 5
Í B riðli fóru leikar nákvæmlega eins 14 ½ gegn 10 ½ fyrir Akureyringa.
Haki Jóhannesson var bestur norðan manna í B riðli fékk 4½ v af 5. Björn V Þórðarson stóð sig best í B riðli fyrir sunnan menn fékk 3½ v af 5
Á laugardagskvöldið var svo haldið 7 mínútna hraðskákmót eftir að menn höfðu snætt dýrindis kvöldverð og sumir fengið sér smá Víking í aðra tána
Þar varð Björn Þorsteinsson efstur með 8½ v af 9. Jóhann Örn Sigurjónsson varð annar með 7½ v. Þriðja sætinu náði Þór Valtýsson fyrirliði norðan manna með 6½ v.
Svo skemmtilega fór að þegar lagðir voru saman vinningar liðanna eftir þetta hraðskákmót skildu liðin jöfn, hvort lið með 45 vinninga.
Á sunnudag kl. 11 var svo hraðskákkeppnin lið gegn liði 7 mín. umhugsunartíma, tíu í hvoru liði. Þar fóru leikar þannig að Norðanmenn sigruðu með 57 vinningum gegn 43 Jón Þ. Þór fékk flesta vinninga Norðanmanna 9 v af 10. Björn Þorsteinsson var bestur af sunnan mönnum með 8½ v.
Þetta var allt saman hin besta skemmtun, engin sár en sumir nokkuð móðir eins og gengur.
Æsismenn þakka Akureyringum kærlega fyrir drengilega keppni og skemmtilega helgi.
Finnur Kr. Finnsson
Af skak.is http://www.skak.blog.is/blog/skak/entry/1165583/
Flokkur: Spil og leikir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.