Pistill formanns um Íslandsmót skákfélaga.
Fimmtudagur, 14. október 2010
Um síðustu helgi var 1-4. umferð á Íslandsmóti skákfélaga (áður deildakeppninni) háð í Rimaskóla í Reykjavík. Eins og í fyrra sendi Skákfélagið fjórar sveitir til keppni. A-sveitin tefldi á ný í fyrstu deild eftir að hafa gert stuttan stans í þeirri annarri í fyrra - reyndar í fyrsta skipti í sögu félagsins. B-sveit og C-sveit tefldu í 3. deild og var sú síðarnefnda öll skipuð skákmönnum sem komnir eru yfir sextugt. Loks tefldi D-sveitin í 4. deild, en hún var öll skipuð unglingum, 11-15 ára.
Í heildina var árangur okkar manna vel viðunandi. Fyrirfram mátti gera ráð fyrirað A-sveitin yrði í harðri fallbaráttu, en hún er að loknum fjórum umferðum af sjö í 6. sæti og getur forðast fall ef hún heldur sig þar. Það er okkur mikið kappsmál að halda okkur í hópi sterkustu skákfélaga landsins, þar sem félagið á tvímælalaust heima. Sveitin var ágætlega skipuð þótt við söknuðum Ólafs Kristjánssonar og danska alþjóðameistarans Torbjørns Bromanns, sem oftast hefur teflt á 1. borði fyrir okkur undanfarið, og það með góðum árangri. Það var gleðilegt að Jón Garðar Viðarsson, sem lítið hefur telft undanfarin ár, telfdi eina skák fyrir félagið. Tveir félagsmenn komu erlendis frá, danirnir Carstensen og Aabling-Thomsen og er sá síðarnefndi nýr með félaginu, en Carstensen hefur telft nokkrum sinnum með okkur áður og hefur reynst traustur liðsmaður. Þeir eru félagar Bromanns í Bronhøj Skakklub, en danska útibúið" okkar hefur annars verið í tryggri umsjón félaga Flóvins Næs, sem einmitt sleit sínum fyrstu skákskóm hér á Akureyri.
Í fyrstu umferð öttum við kappi við Hauka, sem við vissum að afar mikilvægt var að hafa undir í fallbaráttunni. Þar náðist sigur með minnsta mun. Í næstu umferð var teflt við stórmeistaralið Vestmannaeyinga, sem hefur forystu á mótinu. Þar gekk okkur flest í mót. Yðar einlægur náði reyndar að leggja Helga Ólafsson að velli í spennandi skák, en allar aðrar skákir töpuðust, þrátt fyrir vænlegar stöður á sumum borðum, s.s. hjá Carstensen á 1. borði, Stefáni Bergssyni á 5. borði og Sigurði Arnarsyni á því 7. KR-ingar biðu okkar svo í 3. umferð og þar leit lengi vel út fyrir góðan sigur okkar manna, en svo fór að þeir náðu jöfnu. Munaði þar mestu um afar ófarsæl endalok í skák Þórs Valtýssonar á 8.borði, sem lengi var með gjörunnið endatafl, en missti það niður í tap. Þar semKR-ingar eru annað af þeim liðum sem við þurfum að hafa fyrir aftan okkur, voru þessi úrslit nokkur vonbrigði. Í fjórðu umferðinni voru heilladísirnar svo enn uppteknar við annað og úrslit í skákum okkar við Íslandsmeistara Bolvíkinga, urðu ekki jafn góð og leit út fyrir um tíma. Sá sem hér heldur á penna tapaði klaufalega niður betri stöðu gegn Jóni L. Árnasyni og Gylfi Þórhallsson, sem um tíma virtist standa til vinnings gegn Stefáni Kristjánssyni, greip rangan manní tímahraki og tapaði í einfaldri jafnteflisstöðu. Þá mátti Sigurður Arnarson lúta í lægra haldi fyrir Guðmundi Gíslasyni í skák sem lengi stefndi í jafntefli. En sigrar unnust hjá Aabling á 2. borði (gegn 2650 andstæðingi!) og Stefáni Bergssyni á því 5. gegn AM Jóni Viktori Gunnarssyni. Þá mátti AM DagurArngrímsson prísa sig sælan að ná jöfnu gegn Tómasi Veigari á 8. borði.
Niðurstaðan var sumsé 12 vinningar, fjórum meira en Haukarnir í 7. sæti. Við þurfum þó að hafa okkur alla við í seinni hlutanum og vera okkar í efstu deild hvergi tryggð. Bestum árangri náðu Áskell og Stefán, með 2,5 vinning úr fjórum skákum.
3. og 4. deild.
B-sveit okkar þótti líkleg til þess að standa í toppbaráttu, og virðast þær væntingar ætla að ganga eftir. Í fyrstu umferð töpuðum við reyndar naumlega fyrir B-sveit KRinga, en hinar viðureignirnar unnust. Í 3. og 4. deild ráða stig úrslitum í stað vinninga og sveit SA er sem stendur í 4.sæti með 6 stig. Þegar liggur fyrir að við mætum nágrönnum okkar í Goðanum í 5.umferð og má ljóst vara að við þurfum að pumpa allt loft úr Þingeyingum til að komast upp um deild. Annars var árangur flestra okkar manna góður eða viðunandi, en bestir voru þeir Sigurjón Sigurbjörnsson hinn þindarlausi með 3,5 vinning af 4 og Smári Ólafsson, sem vann allar þrjár skákir sínar.
Öldungasveitin (c-sveit), er skipuð margreyndum köppum á góðum aldri og stóð sig vel, þrátt fyrir að hafa aðeins náð í hús tveimur stigum, enn sem komið er. Sveitin á góða möguleika á að halda sér í deildinni enda flestir liðsmenn í framför. Í þeirra hópi náði Haki Jóhannesson bestum árangri, 2,5 vinninga í þremur skákum.
Framtíðarkappar félagsins héldu svo uppi merkjunum í 4.deild og stóðu sig með prýði. Í flestum viðureignum áttu þeir við ofurefli að etja og náðu eftirtektarverðum árangri. Ekkert bendir til annars en að þeir muni klára mótið með sóma á næsta ári. Bestum árangri nú náði Hersteinn Heiðarsson með 2 vinninga í 4 skákum, en fyrstaborðsmaðurinn Jón Kristinn, sem fékk 1,5 vinning má líka vera sáttur við sinn hlut, svo og aðrir liðsmenn sem komu oft á óvart með þroskaðri og yfirvegaðri taflmennsku. Við horfum því bjartsýn til seinni hluta mótsins sem verður háð snemma í mars á næsta ári. Vonandi tekst okkur að ná öllum markmiðunum þremur; að halda A-sveitinni í 1.deild; að vinna sæti í 2. deild fyrir B-sveitina og að halda öldungasveitnni í 3. deild.
Meginflokkur: Fréttir | Aukaflokkur: Íslandsmót skákfélaga | Breytt s.d. kl. 19:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.