Endurbætur á húsnæði Skákfélagsins
Miðvikudagur, 10. janúar 2024
Eins og félagsmenn og iðkendur hafa vafalaust tekið eftir, þá er Skákheimilið - þótt gott sé - ekki meðal íburðarmestu félagsheimila. Líklega er húsnæðið nú nákvæmlega eins og það var gert úr garði við byggingu Íþróttahallarinnar fyrir rúmum fjörutíu árum - nema það að att innanstokks er orðið eldra og lúnara. Félagið hefur um hríð kallað eftir því við húseigandann - Akureyrarbæ - að endurbætur verði gerðar á aðstöðu félagsins. Það erindi hefur fengið ágætis undirtektir, en framkvæmdir látið standa á sér. Nú gerist það með skömmum fyrirvara að verka- og iðnaðarmenn eru klárir í slaginn og okkur gert að rýma aðstöðuna hið fyrsta svo endurbætur geti hafist. Við þurfum því að flytja okkur um set og hugsanlega að breyta eitthvað dagskránni hjá okkur. Þetta þýðir eftirfarandi:
1. Barna- og unglingaæfingar halda áfram skv. auglýstri dagskrá, en frá fimmtudeginum 18. janúar, flytjast þær í Rósenborg. Við verðum á neðstu hæðinni, gengið inn að austan. Aðstaðan er að sönnu heldur lakari en í Skákheimilinu, en við sættum okkur við að þetta er tímabundið ástand; a.m.k. standa vonir til þess að við getum flutt aftur í nýtt og glæsilegt Skákheimili eftir páska.
2. Mótahald er í töluverðri óvissu eins og er. Við hittumst í Skákheimilinu á morgun, 11. janúar og höldum okkur við upphafsumferð Skákþings Akureyrar (meira um það seinna), sunnudaginn 14. janúar, en skoðum eftir það vel og vandlega hvernig öllu verður sem best fyrir komið. Það er ekki óhugsandi að dagskrá SÞA breytist (umferðum seinki), en sú ákvörðun hefur ekki enn verið tekin. Barnamót sem áformað var laugardaginn 20. janúar getur vonandi farið fram, en það verður staðfest fljótlega eftir næstu helgi.
Þetta mun vissulega hafa ýmis óþægindi í för með sér og við höfðum til sveigjanleika og þolinmæði allra iðkenda okkar. Að lokum fáum við umbun erfiðisins með nýju og nútímalegu Skákheimili. Þá verður nú gaman að vera til.
Flokkur: Spil og leikir | Breytt 11.1.2024 kl. 12:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.