Evrópumót skákfélaga; tap fyrir TR.

Það var engin sérstök ánægja með að lenda á móti löndum okkar í Taflfélagi Reykjavíkur í fyrstu umferð Evrópumóts skákfélaga hér í Mayrhofen. Þeir töluvert stigahærri á öllum borðum og með fjóra stórmeistara í liðinu.
Á fyrsta borði varð Jón Kristinn snemma að gefa peð í skák sinni við Guðmnund Kjartansson. Hann þvældist lengi eftir það en í raun var útlitið alltaf heldur dökkt og hann tapaði að lokum. Rúnar var líka lengst af með heldur þrengra tafl gegn Sulypa sem fór sér að engu óðslega og ýtti okkar manni hægt og sígandi út af borðinu. Á þriðja borði tefldi Stefán mjög djarflega gegn Margeiri Péturssyni og mátti stórmeistarinn hafa sig allan við. Staðan var þess eðlis að eitt feilspor skipti sköpum og þá máttu menn Stefáns ekki við margnum. Svona var staðan eftir tæplega fjögurra tíma taflmennsku og leist okkur sannarlega ekki á blikuna. Áskell varðist í verrin stöðu gegn Þresti Þórhallssyni á fjórða borði og var peði undir í endatafli. Þröstur tefldi þó ekki sem nákvæmast og Áskell náði mótspili sem dugði til jafnteflis. Andri Freyr var hetja dagsins, tefldi ágæta skák gegn Ingvari Þór Jóhannessyni. Hafði þægilegt frumkvæði lengi vel. Ingvar náði að klóra í bakkann, en var orðinn mjög tæpur á tíma. Þetta gat Andri notfært sér og náði að rbjótast með hrók sinn inn í stöðu Ingvars og knýja fram léttunnið endatafl. Á sjötta borði var Haraldur lengi vel með trausta stöðu með svörtu en missti þolinmæðina og sprengdi upp stöðuna áður en það var tímabært. Hann sat þá uppi með veikleika sem honum retndist um megn að verja.
1,5-4,5 eru auðvitað ekki fyllilega ásættanleg úrslit, en þó ekki óeðlileg miðað við þann styrkleikamun sem er á sveitunum skv. elostigum. 
Í næstu umferð sem byrjar kl. 12.00 á morgun teflum við við Bærum Sjakklubb frá Noregi. Þeir eru stigahærri en við, en möguleikar okkar samt alveg þokkalegir.
Hér má svo sjá allt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband