Firmakeppnin, 3. riðill
Sunnudagur, 10. apríl 2016
Í dag fór fram 3. umferð firmakeppninnar. 7 keppendur mættu til leiks og kepptu fyrir jafn mörg fyrirtæki. Er þeim hér með þakkað fyrir þátttökuna.
Tefld var tvöföld umferð þannig að 12 vinningar voru í boði fyrir hvern keppanda. Leikar fóru svo að Sigurður Arnarson bar sigur úr bítum. Hann saumaði jafnt og þétt að andstæðingum sínum og hlaut 10 vinninga. Hann keppti fyrir Litlu saumastofuna.
Í öðru sæti lenti Símon Þórhallsson. Það bar lítið á honum framan af móti og var hann stundum eins og álfur út úr hól. En hann sólaði andstæðinga sína upp úr skónum eftir yfirsetuna og hlaut samtals 8 vinninga. Hann keppti fyrir Skósmiðinn og álfana.
Jafnir í 3.-4. sæti urðu Sigurður Eiríksson og Haki Jóhannesson. Sigurður lagði mikið undir í sínum skákum og gaf bensínið í botn. Hann keppti fyrir Olís. Meira öryggi var yfir skákum Haka, enda keppti hann fyrir hönd Securitas.
Í 5. sæti lenti Áskell Örn Kárason með 7 vinninga. Ljóst er að hann þarf eitthvað að endurskoða taflmennskuna eftir þetta mót. Hann tefldi fyrir KPMG.
Í tveimur neðstu sætunum lentu minna reyndir kappar, en framtíð þeirra er björt ef þeir stunda skákina af kappi. Í 6. sæti lenti Fannar Breki Kárason. Hann efldist með hverri raun og hlaut 2 vinninga. Hann tefldi fyrir Eflingu, sjúkraþjálfun. Ásgrímur Friðrik Alfreðsson komst að því að það er ekki á vísan að róa þegar kemur að vinningasöfnun. Í þetta skiptið komst hann ekki á blað en var brattur að móti loknu og þótti þetta skemmtileg reynsla. Hann er vís til að mæta aftur síðar. Hann tefldi fyrir VÍS.
Flokkur: Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 16:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.