Skákþing Akureyrar - Landsbankamótið
Sunnudagur, 2. febrúar 2014
Jón Kristinn heldur forystunni
Aðeins voru tefldar þrjár skákir af fimm í 6. umferð mótsins í dag. Hinum tveimur er frestað til þriðjudags. Í toppbaráttunni dró þó til tíðinda. Yngsti keppandinn, Jón Kristinn Þorgeirsson, hélt efsta sætinu eftir sigur í vandaðri skák gegn Sigurði Eríkssyni - sem nú hefur tapað tveimur skákum í röð eftir fantagóða byrjun. Sigurður fórnaði peði heldur ógætilega í miðtaflinu. Jón þá peðið og skipti svo upp sem mest hann mátti. Endataflið var heldur þvælingslegt, en þó hillti ávallt undir sigur ungstirnisins, sem varð staðreynd eftir 61. leik. Jón er það með kominn með fimm og hálfan vinning eftir sex skákir. Þó er ekki langt í næsta mann; Haraldur meistari fyrra árs bítur líka grimmilega frá sér og lagði í þetta sinn Hjörleif að velli í magnaðri skák. Þar lék Öxndælingur af sér skiptamun snemma tafls, en staðan var ákaflega lokuð og seintelfd. Að mati Sveinbjörns skáskýranda (sjá mynd), fór Stýrimaður svo hægt í sakirnar að skömm var að. Hann vann þó að lokum, nokkuð sannfærandi að mati áhorfenda. Þriðja skákin var einnig sviptingasöm. Í rólegri stöðu fórnaði Andri tveimur mönnum fyrir hrók og vonir um góða framrás í endatafli. Tókst honum að þjarma nokkuð að Jakobi Silgfirðingi og komst í hróksendatafl peði yfir. Var Jakob í skuggalegu tímahraki að vanda. Hann kunni þó vel að verjast í þessari stöðu og sættust kapparnir á skiptan hluteftir 50 leiki. Hefur Andri þar með tekið glæsilega forystu í keppninni um jafntefliskónginn - með fimm í sex skákum.
Ljóst er að þeir Jón Kristinn og Haraldur berjast öðrum fremur um titilinn þetta árið. Eru þeir á góðri leið með að stinga aðra keppendur af, sá fyrrnefndi hefur aðeins leyft eitt jafntefli og hinn er með tvö. Sigurður er svo vinningi á eftir Haraldi. Aðrir hafa eitthvað færri vinninga en staðan óljós vegna frestaðra skáka. Annars má berja öll herlegheitin augum á Chess-Results að venju.
Flokkur: Spil og leikir | Facebook
Athugasemdir
Gaman að hafa fjör í þessu,ekki spurning,megi sá besti vinna!!!!
Haraldur Haraldsson, 2.2.2014 kl. 22:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.