Hverfakeppni SA:

Öruggur sigur Norðurbandalagsins

Hin árlega hverfakeppni SA var háð á næstsíðasta dagi ársins sem nú er senn á enda. Eins og undanfarin ár leidduþar tvö lið fram hesta sína; annað var skipað sk. Þorpurum sem fengu til liðs við sig þá sem í hálfkringi hafa verið nefndir Eyrarpúkar, enda búsettir á Oddeyri.  Þá styrktu þeir sveit sína með einum liðsmanni sem nýlega er fluttur suður yfir Glerá, en þar sem hann getur horft yfir Þorpið úr eldhúsglugganum hjá sér þótti það nægileg ástæða til að hann fylgdi þeim að málum í þetta sinn. Hitt liðið var skipað skákmönnum búsettum í suðurhluta bæjarins; allir sunnan Glerár og reyndar allir á Brekkunni,uppnefndir Brekkusniglar af andstæðingunum.

Sama liðsskipting var í keppninni í fyrra og unnu þá Brekkusniglar nauman sigur. Í þetta sinn fór á annan veg. Teflt var á 13 borðum og var keppnin tvískipt. Fyrst tefldi hver maður tvær 15 mín skákir við sama andstæðing. Í fyrri umferðinni neyttu norðlingar aflsmunar og unnu stórsigur: 8.5-4.5 Þeir slökuðu svo örlítið á í seinni umferðinni og Brekkusniglar mörðu nauman sigur: 7-6. Samtals unnu því Þorparar&co 15 mín. skákirnar 14.5-11.5.

Þá var tekið til við hraðskák skv. bændaglímufyrirkomulagi; hver liðsmaður tefldi við alla í hinu liðinu; alls 13 skákir. Norðurbandalagið vann fyrstu umferðina 9-4 og leit aldrei til baka eftir það. Sunnanmenn unnu aðeins sigur í tveimur umferðum af 13 og í einni var jafnt. Þeim gekk einkum illa í fyrri hluta keppninnar, en söxuðu á forskot andstæðinga sinna í síðustu 5 umferðunum, sem þeir unnu með 5 vinninga mun. Það dugði þó ekki til og öruggur sigur 92-77 var staðreynd. Bestum árangri norðanmanna náð Ólafur Kristjánsson, sem fékk 10,5 vinning í 13 skákum og næstur var Tómas Veigar Sigurðarson með 9,5.  Af sunnanmönnum bar Jón Kristinn Þorgeirsson af og vann allar sínar skákir, 13 að tölu. Rúnar Sigurpálsson fékk 11 vinninga og Andri Freyr Björgvinsson 10. Aðrir voru lakari.

Þar með lauk síðasta skákmóti ársins. Fyrsta skákmót nýs árs er þó skammt undan; árlegt NÝJÁRSMÓT hefst kl. 14 á fyrsta degi ársins 2014. 

Óskum við svo félögum okkar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband