Drottning fyrir hrók og léttan mann
Mánudagur, 3. desember 2012
Fimmtudaginn 6. desember verður fyrirlestur í boði Skyrgáms í félagsaðstöðu Skákfélagsins kl. 20.00. Einkavinur Skyrgáms mun þar fjalla um stöður þar sem drottning er látin af hendi fyrir hrók og léttan mann. Almennt teljast það ekki nægar bætur en margir gera þetta þó sjálfviljugir. Ýmist er þetta gert til að bjarga sér úr klípu eða fyrir einhvern stöðulegan ávinning eða frumkvæði. Ekki verða skoðaðar stöður þar sem mátssókn kemur í kjölfarið heldur einhver annar ávinningur. Farið verður yfir skákir nokkurra snillinga og reynt að varpa ljósi á hvenær þetta er réttlætanlegt og hvað ber að varast. Skoðað er hvernig best er að tefla svona stöður út frá sjónarhóli beggja aðila.
Fyrirlesari kvöldsins og Skyrgámur eru kunningjar frá því að þeim síðarnefnda tókst að koma áhuga á kartöflurækt í hausinn á þeim fyrrnefnda með því að gefa honum útsæði á ungaaldri. Síðan hafa þeir haldið nokkuð góðu sambandi og þegar fyrirlesarinn bjó austur í Skriðdal tók hann m.a. að sér að passa hreindýr Skyrgáms. Að auki eru þeir nokkuð líkir í vextinum.
Flokkur: Spil og leikir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.