Góð byrjun Skákfélagsmanna
Fimmtudagur, 12. janúar 2012
Í gær lauk annarri umferð Kornax-mótsins sem er 81. Skákþing Reykjavíkur. Í mótinu taka þátt 73 keppendur og þar af eru 3 félagar í Skákfélagi Akureyrar. Þeir hafa staðið sig vel og verður farið yfir árangur þeirra í fyrstu tveimur umferðunum.
Stefán Bergsson er 7. stigahæsti þátttakandinn með 2175 elostig. Hann er með fullt hús eftir að hafa lagt ungstirnin Vigni Vatnar Stefánsson (1461) og Dag Ragnarsson (1826) i fyrstu tveimur umferðunum. Í næstu umferð mætir hann Erni Leó Jóhannssyni (1941).
Þór Valtýsson er 14. stigahæsti þátttakandinn með 1984 elóstig. Hann er einnig með fullt hús vinninga eftir að hafa lagt Elínu Nhung (1299) og Arnar Ingólfsson (1709) í fyrstu tveimur umferðunum. Í næstu umferð fær hann alþjóðlega meistarann Guðmund Kjartansson (2326).
Mikael Jóhann Karlsson er 20. Stigahæsti keppandinn í mótinu með 1867 elóstig og 1914 íslensk skákstig. Mikki hefur 1,5 vinninga eftir að hafa lagt Svandisi R. Ríkharðsdóttur (1102) í fyrstu umferð og náð þeim frábæra árangri að gera jafntefli við landsliðsmanninn og alþjóðlega meistarann Björn Þorfinnsson (2406) í annarri umferð. Björn er 3. stigahæsti keppandinn í mótinu. Í þriðju umferð mætir þessi efnilegi Akureyringur Elsu Maríu Kristínardóttur (1729).
Flokkur: Spil og leikir | Breytt 14.1.2012 kl. 11:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.