Hverfakeppnin: jafnt á öllum vígstöðvum!
Mánudagur, 30. desember 2024
Hin árlega hverfakeppni SA var háð í gær, 29. desember. Lengi vel var mönnum skipað í sveitir eftir búsetu í bænum, en nú þykir það ekki henta lengur, hvað sem síðar verður. Í þetta sinn völdu höfðingarnir Rúnar Sigurpálsson og Símon Þórhallsson sér liðsmenn úr hópi viðstaddra. Úr urðu tvær firnasterkar fimm manna sveitir, reyndar kom sjötti maðurinn til liðs við aðra sveitina sem varamaður.
Skáksveitanafnanefnd Norðurlands valdi sveitunum nöfn og stýrði Rúnar Fáfnisbönum en Símon Miðgarðsormum. Tefld var bændaglíma, tvöföld umferð. Er skemmst frá því að segja að keppnin var hörð og jöfn. Banarnir höfðu náð góðri fyrstu eftir fyrri hlutann; 14,5-10,5 en í upphafi seinni hlutans sneru Ormarnir taflinu við og náðu naumri forystu. Með ofurmannlegu átaki í lokaumferðunum tókst Bönunum hinsvegar að jafna metin og lokaniðurstaðan varð 25-25. Ekki voru reiknuð borðastig vegna ákafrar andstöðu Bananna og þetta því látið gott heita.
Bestum árangri náði Símon Miðgarðsormur með 8,5/10 en Rúnar Fáfnisbani fékk 7,5 og sömu vinningatölu náði reyndar Áskell Ormur Kárason líka.
Nú verður gert örstutt hlé á taflmennskunni yfir áramótin, en hið margumtalaða Nýjársmót félagsins fer fram á fyrsta degi ársins og byrjar kl. 14.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)